Viggó Kristjánsson tilnefndur til íþróttamanns Gróttu 2014
Viggó Kristjánsson er tilnefndur til íþróttamanns Gróttu 2014 af knattspyrnudeild og handknattleiksdeild. Viggó er fæddur og uppalinn Seltirningur og Gróttumaður og er hann yngsti leikmaður Gróttu til að spila meistaraflokksleik. Viggó lék 34 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu áður en hann gekk til liðs við Pepsi-deildarlið Breiðabliks haustið 2011, þá 17 ára gamall. Viggó lék í tvö ár með Blikum og spilaði samtals 16 leiki í úrvalsdeildinni á þeim tíma. Frábær leikskilningur og góð boltameðferð er það sem einkennir leik Viggós en hann er þeim kostnum búinn að geta sparkað jafnvel með hægri og vinstri fæti. Viggó sneri aftur á Nesið í vor og var lykilmaður í liði Gróttu sem tryggði sér sæti í 1. deild. Hann fór hamförum fyrri hluta tímabils og skoraði 9 mörk í fyrstu 14 umferðunum. Að sumri loknu var Viggó valinn í lið ársins í 2. deildinni í kosningu þjálfara og fyrirliða.
Íris Björk tilnefnd til íþróttamanns Gróttu 2014
Íris Björk Símonardóttir er tilnefnd sem íþróttamaður Gróttu 2014 af handknattleiksdeild. Íris er 27 ára gömul uppalin hjá félaginu og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Gróttu árið 2003 þá 16 ára gömul. Íris Björk hefur leikið allan sinn feril með Gróttu ef frá eru talin tvö ár þar sem hún lék með Fram og tvö ár þar sem hún tók sér frí frá handboltaiðkun.
|
Aron Lee Du Teitsson tilnefndur til Íþróttamanns Gróttu 2014
Aron Lee Du Teitsson er tilnefndur til íþróttamanns Gróttu 2014 af kraftlyftingadeild. Aron sigraði á Íslandsmótinu í bekkpressu í janúar sl. í 93 kg flokki þegar hann lyfti 215 kg. Hann er núverandi Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum (kraftlyftingum án búnaðar) en hann sigraði á Íslandsmótinu sem fram fór í febrúar sl. Þar setti hann Íslandsmet í bekkpressu (175 kg), réttstöðulyftu (287,5 kg) og í samanlögðu (692,5 kg). Hann sigraði einnig í sínum flokki á Íslandsmótinu í kraftlyftingum sem fram fór í mars sl.
|
Fanney Hauksdóttir tilnefnd til íþróttamanns Gróttu 2014
Fanney Hauksdóttir er tilnefnd til íþróttamanns Gróttu 2014 af kraftlyftingadeild. Fanney sigraði á Íslandsmótinu í bekkpressu í janúar sl. (110 kg). Hún keppti fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramóti unglinga í bekkpressu í maí sl. þar sem hún varð heimsmeistari í bekkpressu þegar hún lyfti samtals 135 kg. Hún sigraði ekki einungis í sínum flokki (63 kg) heldur stóð hún uppi sem sigurvegari mótsins! Með þessu stórbætti hún Íslandsmetið í bekkpressu. Fanney er nú í 7. sæti á heimslista IPF í 63 kg opnum flokki!
|