Gleði á Gróttuvelli

jonniskorarÞað var margt um manninn á Gróttuvelli í dag en fyrir leik Gróttu og Dalvíkur/Reynis var fjölskylduhátíð þar sem allir iðkendur knattspyrnudeildar fengu afhentan nýjan keppnisbúning. Eins og við mátti búast var boðið upp á hörkuleik en Norðlendingar voru með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir. Það var Jónmundur Grétarsson sem tryggði Gróttu glæsilegan 1-0 sigur með laglegu marki og eru okkar menn því komnir með 7 stig og ekki langt frá efstu liðum.

Gestirnir byrjuðu ögn betur og fengu hættulega aukaspyrnu snemma leiks sem blessunarlega fór yfir markið.  Grótta náði betri tökum á leiknum eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og var Þorvaldur Sveinn nálægt því að skora eftir hornspyrnu. Skömmu síðar slapp Jónmundur einn í gegn, lék á tvo varnarmenn en hinn stóri og stæðilegi markvörður Dalvíkur/Reynis kom til bjargar á síðustu stundu.

Áður en flautað var til hálfleiks skoraði Enok mark sem dæmt var af vegna rangstöðu og er fréttamaður Gróttusport með öllu óviss hvort um réttan dóm hafi verið að ræða. En staðan markalaus í hálfleik og allt að gerast.

Grímur Björn Grímsson kom inná sem varamaður á 62. mínútu og var nokkrum mínútum seinna búinn að leggja upp mark. Þá átti hann góða sendingu fyrir markið á Jónmund Grétarsson sem var einn og yfirgefinn í vítateig gestanna, tók boltann á kassann og bombaði honum upp í þaknetið við mikinn fögnuð viðstaddra. Grímur, sem er uppalinn Seltirningur og lék síðast með Gróttu árið 2009, þurfti að fara meiddur af velli eftir 12 ágætar mínútur inni á vellinum.

Í hans stað kom Pétur Theodór sem lét strax að sér kveða og var nálægt því að auka muninn með skalla sem fór rétt fram hjá. Þegar um 10 mínútur voru eftir fengu Dalvíkingar dauðfæri til að jafna metin þegar markahæsti leikmaður 2. deildar, Kristján Steinn Magnússon, slapp einn í gegn en sem betur fer fór skot hans fram hjá markinu. 

Það var mikið fjör undir lokin og fékk Jónmundur til að mynda fínt færi eftir frábæran undirbúning Péturs. Gestirnir fengu nokkur hættuleg horn á lokaandartökunum og fór kliður um áhorfendur þegar markmannströll Dalvíkinga vatt sér inn í teiginn og vann skallabolta sem þó fór fram hjá markinu.

Hinn mjög svo spjaldaglaði dómari leiksins flautaði loks af og frábær sigur í höfn hjá okkar mönnum. Stuðningur áhorfenda hefur heldur aldrei verið betri og eru Gróttu Fálkarnir sannarlega að vakna til lífsins eins og sjálft Gróttuliðið.

Þobbi og Rúnar voru til fyrirmyndar á miðjunni líkt og í síðustu leikjum og þá skapaðist oft hætta í kringum Jens í framlínunni. Ekki má heldur gleyma hinum baneitraða Jónmundi og frábært fyrir Gróttuliðið að hann sé orðinn heill heilsu. Besti maður Gróttu í leiknum var þó klárlega Hrafn Jónsson sem djöflaðist fram og til baka sem óður maður og vann fyrir liðið af elju ásamt því að skapa oft hættu upp við vítateig andstæðinganna.

Lið Gróttu í leiknum:

Jón Kolbeinn Guðjónsson, Kristófer Þór Magnússon, Guðmundur Marteinn Hannesson, Anton Ástvaldsson, Sigurður Steinar Jónsson, Þorvaldur Sveinn Sveinsson, Rúnar Guðbjartsson (Helgi Frímannsson '80), Enok Eiðsson (Grímur Björn Grímsson '62) (Pétur Theodór Árnason '73), Jónmundur Grétarsson, Hrafn Jónsson, Jens Elvar Sævarsson

Ónotaðir varamenn: Gunnar Smári Agnarsson, Garðar Guðnason, Frans Veigar Garðarsson, Hjörvar Hermannsson

byrjunarlid
Krakkar úr 7. flokki leiddu leikmenn inn á völlinn í dag

jonniskorar
Jonni fagnar glæsilegu marki

fagnvsdalvik
studningsmenn
Það var stemning í stúkunni!
snilld

Undirsíður

  • Á döfinni

  • Grótta TV

  • KV - Grótta, 2. deild karla í knattspyrnu (Lau, 21. sep)
Meira...
left direction
right direction

Flýtileiðir