Þann 8. júní héldu 15 vaskar Gróttustelpur í 5. flokki á TM-mótið (Pæjumótið) í Vestmannaeyjum. Grótta sendi tvö lið til leiks sem bæði stóðu sig með mikilli prýði en hér verður sagt frá ævintýrum Gróttustelpnanna í stuttu máli.

Grótta1 hóf mótið á sigri í nágrannaslag við KR en laut svo í lægra haldi gegn Stjörnunni og Fylki en leikurinn við Garðabæinga var jafn og spennandi allan tímann. Á öðrum degi sigruðu stelpurnar Breiðablik3 örugglega en töpuðu svo fyrir ógnarstórum og sterkum Víkingsstúlkum. Síðasti leikur dagsins var hreinn úrslitaleikur um sæti í 8-liða úrslitum við KA. Það gekk hreinlega allt upp í leiknum hjá okkar stúlkum og glæsilegur 3-0 sigur staðreynd. 8-liða úrslitin byrjuðu vel þar sem stelpurnar voru hársbreidd frá því að leggja Breiðablik1 að velli, lokatölur 1-1. Þegar upp var staðið lék Grótta um 7. sætið og tryggði sér það með sigri á Fylki.

Grótta 1

Grótta 1

 

Grótta2 byrjaði á móti sterku liði FH3 og spilaði vel þótt tap hafi orðið niðurstaðan. Í kjölfarið fylgdu svo sigrar á HK2 og Álftanesi2 en í síðari leiknum léku Gróttustelpur við hvurn sinn fingur og skoruðu nokkur stórglæsileg mörk. Annar dagur var opnaður með baráttusigri á heimastúlkum í ÍBV2 en eftir hann var leikið við A-lið Álftaness. Þar var frammistaða Gróttustelpnanna framúrskarandi. Þær töpuðu leiknum en spiluðu boltanum oft fram völlinn af svo mikilli fagmennsku að Álftnesingar hreinlega snerust í hringi. Síðasti dagur mótsins var ekki nægilega drjúgur hjá Gróttu2. Þreyta virtist vera komin í mannskapinn en þrátt fyrir frekar slakan endi geta stelpurnar verið ánægðar með gott mót og miklar framfarir síðustu mánuði.

Grótta 2

Grótta 2

 

Á föstudagskvöldinu fór fram landsleikur Pæjumótsins þar sem fulltrúar frá öllum félögum léku í annað hvort landsliði eða pressuliði. Tinna Brá Magnúsdóttir varði mark pressuliðsins sem var einmitt stýrt af Magnúsi Erni Helgasyni, þjálfara Gróttu. Hinn þjálfarinn var svo KR-ingurinn Alexandre Fernandez en tvímenningarnar þjálfa 3. flokk Gróttu/KR í sameiningu. Leikurinn var afar spennandi og lyktaði með markalausu jafntefli. Tinna varði í tvígang meistaralega í fyrri hálfleik og fékk mikið lof fyrir góða frammistöðu.

Tinna á leið í landsleikinn á Hásteinsvelli

Tinna á leið í landsleikinn á Hásteinsvelli

 

Ferðin til Eyja var mikið ævintýri en auk þess að spila fótbolta fóru stelpurnar í rútuferð, bátsferð og tóku þátt í hæfileikakeppni. Þar var Grótta eina félagið sem ekki bauð upp á dansatriði heldur frumsaminn leikþátt með góðum boðskap um jafnrétti í knattspyrnu. Mikið hugrekki og vel að verki staðið hjá stelpunum.

Lilja Liv og Vilborg voru fánaberar á kvöldvökunni

Lilja Liv og Vilborg voru fánaberar á kvöldvökunni

 

Frábær ferð í alla staði hjá efnilegum hópi knattspyrnukvenna, stoltum þjálfara og samstilltum og skemmtilegum foreldrahópi.

Foreldrar og systkini á kantinum

Foreldrar og systkini á kantinum

 

Ása í baráttunni með Gróttu 1

Ása í baráttunni með Gróttu 1

 

Grótta 2 fagnar góðu marki

Grótta 2 fagnar góðu marki

 

Gróttustelpur fylgjast með úrslitaleik mótsins

Gróttustelpur í stúkunni á úrslitaleik mótsins

 

Framlag Gróttu í myndakeppni mótins. Traust og liðsheild!

Framlag Gróttu til myndakeppni mótins. Traust og liðsheild!

 

Eyjó ljósmyndari var í Vestmannaeyjum og tók þessar myndir. Myndir af mótinu á finna á vef Sporthero. Liðsmyndirnar eru ókeypis en einstaklings- og mótsmyndir eru til sölu.